Á ég að sækja um þetta starf?

Á hverjum degi fæ ég allskonar fyrirspurnir og óskir um ráðleggingar og það er meira en sjálfsagt að aðstoða.

Með þessum pósti langar mig að blása þér byr í brjósti og vonandi efla sjálfstraustið eilítið.

Ein algengasta afsökun sem ég fæ, já afsökun, fyrir því að viðkomandi sækir ekki um draumastarfið er að hann eða hún “geti það ekki“.
Ég spyr á móti hví ekki og fæ yfirleitt svarið um að viðkomandi uppfylli ekki 100% kröfur atvinnurekandans, bara allt að 80-90%.

Ef þú uppfyllir næstum því allt sem auglýst er eftir, af hverju ekki að sækja um og selja þeim hugmyndina um að þú getir tileinkað þér það sem upp á vantar?

Gunna vinkona mín hafði unnið lengi í greiningardeild hjá stóru fyrirtæki og var orðin eins og húsgagn að eigin mati. Verkefnin of auðveld og í raun leiddist henni eftir þessi rúmlega 10 ár á sama stað. Hana langaði að breyta til en fannst hún ekki kunna nógu mikið í þessu eða hinu forritinu og svo var hún ekki með sérmenntun. Hún bjó hins vegar að gríðarlegri reynslu í greiningu flókinna gagna, framsetningu á þessum gögnum svo að hinn venjulegi starfsmaður skildi um hvað málið snérist, mikla og góða yfirsýn, var vel liðin og hafði mjög góð meðmæli frá yfirmanni.
Þegar hún sá auglýsinguna með draumastarfinu ákvað hún að stökkva til og viti menn,
hún fékk stöðuna. Um leið og hún ákvað að láta ekki skort á sjálfstrausti stoppa sig, fékk hún það sem hún vildi.

Ný myndi ég skoða ferilskrána mína með stolti þess sem á það skilið, skoða öll spennandi störfin sem eru í boði á Job, hætta að hlusta á fýlupúkann á öxlinni og sækja um draumastarfið!

Gangi þér vel

Sigga