SORPA

  • Gylfaflöt 5, Reykjavík, Rvk og nágrenni 112, Iceland
  • www.sorpa.is

Stefna, markmið og leiðir til árangurs
Eftirfarandi eru stefna, markmið og leiðir í helstu málaflokkum SORPU.
Samstarfsvettvangur
Flokkun, söfnun og endanleg meðhöndlun úrgangs er hluti af óslitinni keðju verkefna sem sveitarfélögin bera ábyrgð á. Mikilvægt er að samræmi sé í allri vinnslu þessara verkefna. Eigendur SORPU hafa falið félaginu ákveðinn hluta verkefnanna og því áríðandi að tryggja og efla samstarf og samskipti milli SORPU og eigenda byggðasamlagsins. 
 
Þróun endurvinnslu og tæknibreytingar
Mikilvægt er að SORPA nýti bestu tækni hvers tíma til að auka hagkvæmni og efla umhverfisvernd. Frá því að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs var fyrst staðfest hefur SORPA bs. ásamt samstarfsaðilum sínum leitað hagkvæmustu lausna á framtíðar úrgangsmálum fyrir samfélagið í heild sinni. Haft hefur verið að leiðarljósi að lausnir í úrgangsmálum haldist í hendur og þjóni sama markmiði. 
 
Nýsköpun
Samfélagið er stöðugt að leita að nýjum og hagkvæmum lausnum í úrgangsmálum. SORPA örvar slíka hugsun. 
 
Þjónusta við viðskiptavini
SORPA bs. hefur að leiðarljósi að veita viðskiptavinum sínum bestu þjónustu sem unnt er ásamt því að stuðla að stöðugum endurbótum í úrvinnslumálum. Jafnframt vinnur SORPA að því að uppfylla ákvæði svæðisáætlunarinnar m.a. um að 1. júlí 2013 verði búið að draga úr losun lífræns úrgangs í 50% af heildarmagni ársins 1995. 
 
Samfélagsleg ábyrgð
Samfélagsleg ábyrgð felst í því að fyrirtæki marki sér stefnu þar sem viðskiptahættir þess taka tillit til félagslegra og umhverfislegra þátta samfélagsins. SORPA hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og stuðlar auk þess að sjálfbærum gildum sem víðast í samfélaginu. SORPA skilgreinir í anda stofnsamnings samlagsins samfélagslega ábyrgð út frá fjórum megin þáttum; umhverfi og lífríki, vellíðan starfsmanna, viðskiptavinum og velferð samfélagsins í heild. 
 
Mannauður
Þakka má velgengni SORPU hópi af hæfu, áhugasömu og metnaðarfullu starfsfólki. Starfsfólk SORPU sinnir afar mikilvægu hlutverki við umhverfisvernd á höfuðborgarsvæðinu ekki síður en samstarfsaðilar þess hjá sveitarfélögunum. Starfsfólk hefur umfangsmikla þekkingu á réttri meðhöndlun úrgangs og á endurvinnslumöguleikum hans. Starfsfólk aðstoðar bæði fyrirtæki og almenning við að koma úrgangi sínum í viðeigandi farveg. Segja má að starfsfólk SORPU upplifi umhverfisvernd í verki á hverjum degi og taki virkan þátt í þróun nýrra og endurbættra endurvinnsluleiða. Starfsfólk SORPU er auk þess virkir þátttakendur í endurnýtingu úrgangs með sölu nytjahluta í Góða hirðinum.
Stefna:
Hjá SORPU er jákvætt starfsumhverfi þar sem gott starf er unnið af áhugasömu, samstilltu og ábyrgu fólki og virðing fyrir hverjum einstaklingi er í fyrirrúmi.
Markmið:

  1. Að hafa ávallt á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem veita góða þjónustu og bregðast við síbreytilegum þörfum.
  2. Að valdi og ábyrgð verði dreift þannig að sjálfstæði og frumkvæði starfsmanna fái að njóta sín.
  3. Faglegir stjórnunarhættir séu ætíð leiðarljós stjórnenda hjá SORPU.

Leiðir:

  1. SORPA haldi úti nýliðafræðslu fyrir alla nýja starfsmenn sem og fóstrakerfi fyrir nýja starfsmenn þegar þeir hefja störf.
  2. SORPA standi fyrir skipulögðum vettvangsferðum um byggðasamlagið fyrir alla starfsmenn til að tryggja að þeir séu vel upplýstir um breytingar og þróun innan SORPU.
  3. SORPA gefi út starfsmannablað (Flokkarann) mánaðarlega þar sem fjallað er um nýjungar hjá byggðasamlaginu og annað markvert sem þarf að upplýsa starfsmenn um.