Akureyrarbær

Mannauðsstefna Akureyrarbæjar
Markmið mannauðsstefnunnar er að tryggja að hjá Akureyrarbæ starfi hæft og ánægt starfsfólk sem veiti góða þjónustu.
Í mannauðsstefnunni felast þær væntingar sem Akureyrarbær hefur til starfsmanna sinna ásamt þeim væntingum sem starfsmenn hafa til Akureyrarbæjar sem vinnustaðar.
Mannauðsstefnan á að stuðla að góðum starfsskilyrðum og möguleikum starfsfólks til að dafna í starfi. Hún lýsir vilja bæjaryfirvalda til að byggja upp góðan vinnustað þar sem gott starf er unnið af áhugasömu, samstilltu og ábyrgu fólki í anda jafnræðis.
Gildin sem höfð eru að leiðarljósi eru:
Starfsánægja – Jafnræði – Hæfni
Akureyrarbær vill umfram allt veita íbúum sínum góða þjónustu. Það er sameiginlegt verkefni starfsmanna og stjórnenda sveitarfélagsins að ná þessu takmarki. Slíkt samstarf byggist á gagnkvæmu trausti og virðingu þar sem hver og einn ber ábyrgð á eigin verkum og viðhorfum.