Fjarðabyggð

Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem austast liggur á landinu og það fjölmennasta af sjö sveitarfélögum Austurlands, með um 5.000 íbúa. Það varð til við samruna 14 sveitarfélaga sem fór fram í nokkrum áföngum á árunum 1988 til 2018 og er Fjarðabyggð því eitt yngsta sveitarfélag landsins. Þú ert á góðum stað eru kjörorð sveitarfélagsins.


Fjarðabyggð er öflugt fjölkjarna sveitarfélag sem byggir á sterkum grunni hvað atvinnu- og verðmætasköpun varðar. Gjöful fiskimið eru undan ströndum Austfjarða og er útgerð og vinnsla sjávarafurða ein af meginstoðum atvinnulífsins ásamt álframleiðslu og tengdum þjónustugreinum. Landbúnaður, verslun og þjónusta gegna einnig mikilvægu hlutverki og hefur ferðaþjónusta vaxið hratt á undanförnum árum.