Fjörukráin ehf

Fjörugarðurinn er opinn fyrir matargesti frá kl. 18:00-22:00 alla daga en þá lokar eldhús staðarins. Barinn er hins vegar opin til 01.00 öll kvöld vikunnar. Boðið er uppá okkar margrómuðu Víkingaveislur öll kvöld vikunnar, auk þess sem gestir geta valið af sérréttarseðli.
Haldnar eru Víkingaveislur og við getum tekið á móti allt að 350 matargestum samtímis. Við framreiðum þriggja rétta máltíð og allir réttirnir eru bornir fram í trogum af syngjandi Víkingum og Valkyrjum. Þegar gesti hafa sest til borðs er boðið upp á smakk af rammíslenskum mat s.s. hákarl og harðfisk svona rétt til að kitla bragðlaukana og þessu er skolað niður með snafs af ísköldu íslensku brennivini.  Síðan er borin fram sjávarréttasúpa með blönduðum fisktegundum og nýbökuðu brauði. Aðalréttur er gufusteiktur lambaskanki með maukuðum kartöflum og gljáðum garðávöxtum, fersku salati og sósu. Með forréttinum berum við fram frosið íslenskt brennivín og stóran bjór eða léttvínsglas með aðalréttinum. Í eftirrétt er skyr með bláberjum og sorbet. Að sjálfsögðu er hægt að fá aðra rétti ef óskað er.
Umgjörðin er glæsilegur veitingastaður sem engan á sinn líka. Hann er skreyttur með yfir 100 uppstoppuðum dýrum. Þar er líka að finna 1200 lítra fiskabúr sem er fyrir ofan 16 metra langan útskorinn bar. Veggir eru skreyttir víkingamunum og myndum eftir Hauk Halldórsson. Allur tréskurður er unnin af íslenskum handverksmönnum. Eins hafa erlendir útskurðarmenn lagt okkur lið við útskurð á skreytingum og skurðgoðum. Freyjuhofið er sá hluti hússins sem er stolt okkar. Þar er glæsilegur salur með mikilli lofthæð. Hann er tileinkaður Freyju og þar ríkir ást og friður innan um stórkostleg listaverk í myndum, útskurði og öðru skrauti. Þar er einnig að finna Þrymskviðu í myndformi eftir Hauk Halldórsson og útskornar Freyjumyndir.