Hjallastefnan

Hjallastefnan ehf er framsækið menntafyrirtæki í eigu áhugafólks um skólastarf. Fyrirtækið var stofnað af Margréti Pálu Ólafsdóttur árið 2000 til þess að standa fyrir rekstri leikskólans Hjalla í Hafnarfirði á grundvelli þjónustusamnings en Margrét Pála hafði þá verið leikskólastjóri á Hjalla í áratug og þróað þar kenningar og námskrá Hjallastefnunnar.

Félagið rekur nú tíu leikskóla á grundvelli þjónustusamninga við sveitarfélög; leikskólana Litla-Hjalla og Hjalla í Hafnarfirði, leikskólana Litlu-Ása og Ása í Garðabæ, leikskólann Hólmasól á Akureyri, leikskólann Hraunborg á Bifröst, leikskólann Völl í Reykjanesbæ, leikskólana Laufásborg og Öskju í Reykjavík og leikskólann Akur í Reykjanesbæ. Að auki rekur félagið þrjá einkaskóla á grunnskólastigi en það eru Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ, Hafnarfirði og nú síðast í Reykjavík.