Talþjálfun Reykjavíkur

Talþjálfun Reykjavíkur hefur verið starfrækt síðan 1995. Hjá Talþjálfun Reykjavíkur starfa reyndir talmeinafræðingar sem sinna greiningu, meðferð og ráðgjöf vegna margvíslegra tal-mál- og raddmeina barna og fullorðinna af öllu landinu. Fjöldi þeirra einstaklinga sem hafa fengið meðferð við mál og talmeinum á stofunni skiptir þúsundum.

Talmeinafræðingar hjá Talþjálfun Reykjavíkur hafa lagt sig sérstaklega fram um að fylgjast með nýjungum í starfi og fara reglulega á ráðstefnur og námskeið erlendis. Þá er um að ræða sérhæfingu innan hópsins í meðhöndlun ákveðinna talmeina, s.s. frávikum í framburði, málþroska, raddmeinum eða stami. Jafnframt hafa talmeinafræðingar hjá Talþjálfun Reykjavíkur verið leiðandi í gerð þjálfunarefnis og þýðingum prófa ásamt öflun fjölbreytilegra þjálfunargagna erlendis frá. Talmeinafræði er ungt fag hérlendis og mikill skortur á prófgögnum og meðferðarefni. Við höfum því lagt áherslu á frumkvæði í gagnavinnu og fræðslu til samstarfsaðila svo þjálfun skili meiri árangri en ella.

Frávik í máli og tali geta haft mikil áhrif á líf einstaklinga. Þannig hafa rannsóknir erlendar sem innlendar ítrekað sýnt að lestrarerfiðleika er yfirleitt hægt að rekja til frávika í málþroska og málvitund. Auk þess hefur sýnt sig að frávik í máli og tali leiða gjarnan til viðtækari námserfiðleika í grunnskóla auk félagslegs vanda.

Ef beitt er fyrirbyggjandi aðgerðum vegna mál- og talvanda barna í leikskóla og í yngstu bekkjum grunnskóla er hægt að koma í veg fyrir að slík frávik nái að þróast og í mörgum tilfellum unnt að hjálpa einstaklingunum að yfirvinna erfiðleikana. Til að svo megi verða þarf sameiginlegt átak talmeinafræðings, kennara, foreldra og annarra aðila sem hlut eiga að máli hverju sinni.

Talþjálfun Reykjavíkur sinnir starfsþjálfun nema í talmeinafræðum.